Hvað gerir Landsbankinn við 365?

Fuglahvísl birtist 15. júlí 2009 klukkan 09:27

Hvað gerir Landsbankinn við 365?

Um fuglahvísl

Smáfuglarnir koma víða við og hvísla um flest það sem mannlegt er. Þeir eiga erfitt með að þegja um það sem þeim er sagt enda gagnrýnir áhorfendur.

Þegar fjölmiðlar 365 slógu því upp í síðustu viku á forsíðu Fréttablaðsins og í kvöldfréttum Stöðvar 2 að Björgólfsfeðgar hefðu gert Nýja Kaupþingi tilboð um að afskrifa þrjá miljarða af um sex miljarða skuld sem þeir eru í ábyrgð fyrir gagnvart bankanum urðu smáfuglarnir dálítið hugsi. Auðvitað var það frétt að Björgólfsfeðgar færu fram á niðurfellingu skulda, en mikið var tónninn í fréttum af málefnum feðganna ólíkur þeim sem sleginn var í miðlum 365 þegar greint var frá gjaldþroti Íslenskrar afþreyingar, sem áður hét 365 og þar áður Dagsbrún. Bú Íslenskrar afþreyingar er eignalaust og ljóst að kröfuhafar tapa milljörðum - að líkindum nokkuð fleiri milljörðum en Björgólfsfeðgar óska eftir að fá afskrifaðar.

En smáfuglarnir, sem kunna eitthvað fyrir sér í kremlarlógíu, voru fljótir að átta sig á ástæðum. Umræddir fjölmiðlar voru einmitt seldir nýju félagi hálfu ári fyrir gjaldþrotaskiptin. Nýja 365 er að mestu í eigu sömu aðila og áður. Miðlarnir voru seldir inn í nýtt félag með blessun Landsbankans, sem jafnframt er stærsti kröfuhafinn í eignalaust þrotabú Íslenskrar afþreyingar.

Uppstokkun

Orðið á götunni á Eyjunni greindi frá því 10. júlí að verið væri að undirbúa uppstokkun á 365. Stefnt sé að því að færa útgáfu Fréttablaðsins yfir til Birtings:

„Orðið á götunni er að verði ekki gripið til ráðstafana sigli útgáfa Fréttablaðsins í strand í september. Unnið sé að endurskipulagningu 365 miðla og leggi Jón Ásgeir Jóhannesson allt kapp á að bjarga útgáfunni. Einn liður í því sé að sameina 365 miðla og útgáfufélagið Birting, sem Hreinn Loftsson stýrir, en Birtingur gefur út DV og tímarit eins og Séð og heyrt, Gestgjafann, Vikuna, Nýtt líf og Skakka turninn. Við sameininguna mundi prentun DV færast frá prentsmiðju Árvakurs til Ísafoldarprentsmiðju. Það þýðir tekjutap fyrir Árvakur sem prentað hefur DV með þeim skilmálum að viðskiptin séu staðgreidd í hvert skipti áður en vélarnar eru ræstar.“

Uppstokkun af þessu tagi er varla hægt að fara í nema með samþykki Nýja Landsbankans. Smáfuglarnir velta því fyrir sér hvernig staðið verði að þessari uppstokkun. Vissulega er hægt að velta fyrir sér verðmæti Fréttablaðsins, en líklegt er að einhverjar skuldir fylgi með blaðinu yfir til Birtings. Þar með léttist á skuldum 365 gagnvart Landsbankanum og þar með opnast möguleikar fyrir bankann að halda fyrirgreiðslu sinni áfram.

Í þessu sambandi er vert að rifja upp umfjöllun smáfuglanna 16. júní síðastliðinn þegar hvíslað var um enska boltann. Þá var nýlokið útboði í sýningarréttinn til fjögurra ára:

„Sérfræðingar í enska boltanum meðal smáfuglanna segja að 365 hafi boðið um einn milljarð króna í sýningarréttinn. Þetta þýðir að sjónvarpsstöðin greiðir að meðaltali um 250 milljónir á ári. Smáfuglarnir heyra að 365 þurfi að greiða um 20-25% fyrirfram, eða 200-250 milljónir. Slíkir fjármunir liggja ekki á lausu.

Smáfuglarnir velta því fyrir sér hver muni tryggja fjármögnun á fyrirframgreiðslunni. Landsbankinn hefur verið viðskiptabanki 365 en bankinn mun hafa veitt fyrirtækinu mikla fyrirgreiðslu í formi frystingar á lánum og vöxtum fram undir lok þessa árs. Vart er við því að búast að bankinn telji sig í stakk búinn til að auka áhættu gagnvart fjölmiðlafyrirtækinu. Hinir ríkisbankarnir hafa varla áhuga heldur enda engin viðskiptaleg rök fyrir slíkri lánveitingu.“

Getur verið að nú sé að skapast svigrúm fyrir Nýja Landsbankann að koma að fjármögnun enska boltans?

Þessi grein er tekin af vefnum AMX.is , sjá nánar með að klikka á vefinn

http://www.amx.is/fuglahvisl/8321/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband